Um Broddanes Prentvæn útgáfa

Jörðin Broddanes stendur við sunnanverðan Kollafjörð á Ströndum. Leiðin að sunnan liggur norður Hrútafjörð, um Bitrufjörð yfir Ennisháls, en þaðan er mjög gott útsýni yfir Broddanes og allan Húnaflóann, allt suður til Eiríksjökuls og Langjökuls.
Broddanes
Broddanes dregur nafn sitt af dröngum, Broddunum, sem standa undir Ennishöfða milli Kollafjarðar og Birtufjarðar. Einnig segir sagan að fyrsti ábúandi á Broddanesi hafi heitið Broddi, á hann að hafa verið heigður undir höfðanum nálægt dröngunum og sést dys hans þar enn.

Kyrrð og ró einkenna nágrenni heimilisins og er náttúran á svæðinu  mjög sérstök. Þar er fjölbreytt strandlengja, nes, vogar, eyjar, hólmar og sker. Dýralíf er að sama skapi einstakt, við ströndina synda selir og fjölbreytt fuglalíf er á svæðinu.

Broddanes er kjörinn staður fyrir þá sem hafa gaman af fuglskoðun. Stór lundabyggð er í hólma upp við land og auðvelt er að fylgjast með lifnaðarháttum lundans en hann kemur í byrjun maí og hverfur á brott um miðjan ágúst. Æðarvarp er í eyjum og hólmum við Broddanes og krían verpir einnig í nágrenni heimilisins. Fleiri fugla má nefna eins og teistu, tjald, sandlóu, heiðlóu, hrossagauk, spóa og stelk.

Broddanes er þekkt hlunnindajörð og var sagt að þar væru nánast öll hlunnindi, að laxveiði undanskilinni. Á jörðinni er nú þríbýli og er þar stundaður hefðbundinn sauðfjárbúskapur ásamt nýtingu hlunninda en mikið æðarvarp er í Broddanesey og nærliggjandi hólmum.

Broddanesskóli var tekin í notkun árið 1978 og var hann grunnskóli fyrir börn í Bitrufirði og Kollafirði. Kennslu var hætt árið 2004. Arkitekt byggingarinnar er dr. Maggi Jónsson.

Broddanes er aðeins 35 km sunnan Hólmavíkur þar sem komast má í verslun, sund og golf. Þar er einnig að finna Galdrasafnið.