Prentvæn útgáfa
Skrifað af: Administrator   

Broddanes og nágrenni býður upp á margskonar afþreyingu.

Staðurinn sjálfur bíður upp á mjög sérstaka náttúru. Þar er fjölbreytt strandlengja, nes, vogar, eyjar, hólmar og sker og auðvelt að finna skemmtilegar gönguleiðir meðfram ströndinni þar sem hægt er að virða fyrir sér fjölbreytt og einstakt dýralíf.  Við ströndina synda selir og á svæðinu eru miklir möguleikar á sjá hinar ýmsu tegundir fugla s.s. lunda, æðarfugl, teistu, sandlóu, kjóa, fýl og svo mætti áfram telja. Einnig er mikið fuglalíf á eyjum og skerjum við Broddanes og má því segja að staðurinn sé paradís fyrir þá sem vilja kynna sér og skoða fugla. 

Broddanes er aðeins 35 km sunnan Hólmavíkur þar er verslun, sundlaug, golfvöllur, hestaleiga og veitingastaður. Þar er einnig að finna Galdrasafnið sem er sögusýning um galdra og galdramenn á Íslandi.  Á Sævangi skammt sunnan Hólmavíkur er Sauðfjársetrið, safn um sauðfjárbúskap fyrr og nú.

Hægt er að fara í ýmsar dagsferðir út frá Broddanesi.  Þar má t.d. nefna ýmsar gönguleiðir (sjá undir flipanum Gönguleiðir), heimsækja Reykhólasveit og Dali eða innanvert Ísafjarðardjúp.  Einnig er hægt að heimsækja Bjarnafjörð þar sem er að finna Kotbýli Kuklarans og Drangsnes þar sem hægt er að fara á sjóstöng og skreppa út í Grímsey á Steingrímsfirði.

Ýmsir viðburðir eru á Ströndum yfir sumartímann.  Þar má nefna Bryggjuhátíð á Drangsnesi, Hamingjudaga á Hólmavík, Furðuleika á Sævangi, Íslandsmeistaramót í hrútaþukli svo ýmislegt sé nefnt.

 

Síðast uppfært: Sunnudagur, 24. apríl 2011 09:53